Seðlabanki Noregs tilkynnti í morgun 0,5 prósentu stýrivaxtahækkun, úr 0,75% í 1,25%. Um er að ræða mestu hækkun vaxta í einu skrefi hjá bankanum frá árinu 2002. Norski seðlabankastjórinn, Ida Wolden Bache, sagði í tilkynningu að stýrivextir verði líklega hækkaðir upp í 1,5% í ágúst.

Samhljómur var hjá nefndarmönnum peninga- og fjármálastöðugleikanefndar bankans um 50 punkta hækkun, sem var þó tvöfalt meiri en flestir hagfræðingar áttu von á, að því er kemur fram í frétt CNBC.

Nefndin sagði að þörf væri á hærri vöxtum til að ná verðbólgu aftur niður að 2% verðbólgumarkmiðinu. Verðbólgan í Noregi mældist 5,4% í apríl og hefur ekki verið meiri í þrettán ár.