Eignaverðsvísitala Kaupþings hækkaði að meðaltali um  0,7% árið 2007 sem jafngildir meðaltalshækkun eignaverðs árið 2006. Í hálffim fréttum Kaupþings segir að töluverðar sveiflur einkenndu þróun eignverðs árið 2007 sem endurspeglaðist m.a. í mestu lækkun vísitölunnar frá upphafi sem átti sér stað í nóvember þegar eignaverð lækkaði um 3,6% frá fyrri mánuði.

Lækkun eignaverðs að undanförnu má að mestu rekja til mikilla lækkana á innlendum hlutabréfamörkuðum. Einnig hefur fasteignamarkaðurinn gefið lítillega eftir að undanförnu eftir að hafa verið með líflegasta móti síðan í byrjun seinasta árs. Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 1,5% í nóvember sem er mesta lækkun sem mælst hefur í 13 mánuði. Þrátt fyrir dalandi eignverð síðustu mánuði nemur hækkun eignverðs milli ára um 8%. Eignaverðsvísitala Kaupþings endurspeglar almenna eignasamsetningu heimila þar sem tekið er mið af þróun fasteigna-, hlutabréfa- og skuldabréfaverðs.

Eignir heimila gætu lækkað enn frekar

Ólíkir þættir liggja til grundvallar fyrir þróun eignaverðs undanfarin tvö ár. Árið 2006 einkenndist af stöðnun á fasteignamarkaði sem aftur dró úr eignaverðshækkunum. Árið 2007 einkenndist hins vegar af líflegum fasteignamarkaði en miklum samdrætti á hlutabréfmarkaði. Að mati Greiningardeildar Kaupþings mun ró færast yfir fasteignamarkað á næstu misserum sem ætti að draga úr frekari hækkun eignaverðs milli ára. Þá er enn órói á alþjóðamörkuðum sem hefur áhrif á hlutabréfamarkaðinn hér heima líkt og erlendis. Að öðru óbreyttu má því gera ráð fyrir að hækkun eignaverðs á næstu misserum verði heldur minni en verið hefur.

Hækkandi eignaverð skapar auðsáhrif

Almennt skilar hækkandi eignaverð auðsáhrifum til heimila sem hvetur áfram einkaneyslu. Eignaverð og frekari neysla heimila fylgjast jafnan að og því gæti lækkun eignverðs skilað sér í minni einkaneyslu en verið hefur. Varast ber þó að draga of víðtækar ályktanir af hreyfingum á eignverði milli mánaða þar sem sveiflur geta stundum verið miklar, að mati Greiningardeildar Kaupþings.