Icelandair flutti rúmlega 218 þúsund farþega í áætlunarflugi sínu í júlí og er það mesti fjöldi farþega sem Icelandair hefur flutt í einum mánuði frá upphafi, en félagið fagnar í ár 70 ára afmæli sínu.

Farþegunum fjölgaði um 5% frá því í júlí í fyrra en þá voru þeir 207 þúsund. Sætaframboð Icelandair í júli, mælt í sætiskílómetrum, var aukið um 5% milli ára og sætanýting félagsins í mánuðinum var 82,5%. Þetta kemur fram í frétt frá félaginu.

Á fyrstu sjö mánuðum ársins 2007 fjölgaði farþegum Icelandair um 3% frá síðasta ári og voru 910 þúsund. Sætanýting á þessu tímabili var 74,5% og lækkaði um 3,0 prósentustig milli ára. ?Við jukum töluvert við framboð okkar í sumar, bættum við nýjum áfangastöðum og hófum morgunflug frá Íslandi til Bandaríkjanna í fyrsta sinn", segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair í frétt frá félaginu.

"Við erum því að sjá fleiri farþega en nokkru sinni fyrr, verulega fjölgun á farþegum frá Íslandi og til Íslands, en hinsvegar fækkun á farþegum á leið milli Bandaríkjanna og Evrópu með viðkomu á Íslandi," segir Jón Karl.