Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar hf. (TM) eftir skatta árið 2005 nam 7.198 milljónum króna en nam á árinu 2004 2.091 milljónum króna. Þetta er mesti hagnaður í sögu félagsins. Hagnaður TM eftir skatta á fjórða ársfjórðungi 2005 nam 1.764 milljónum króna. Á sama tíma á síðasta ári nam hagnaðurinn 608 milljónum króna.

Í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar kemur fram að hagnaður á hlut á árinu nam 7,89 kr. samanborið við 2,24 krónur á árinu 2004.

Rekstrartap af vátryggingastarfsemi árið 2005 nam 481 m.kr. Skýrist það m.a. af auknum tjónaþunga á ökutækjum og slysum á sjómönnum sem jukust sérstaklega á síðasta ársfjórðungi.

Eftir árvissan samdrátt hækka bókfærð iðgjöld um 2,2% frá árinu 2004 og námu 6.011 m.kr. árið 2005. Eigin iðgjöld félagsins lækka hins vegar á sama tíma um 1,5% og námu 4.890 m.kr. árið 2005

Fjárfestingatekjur TM námu 7.707 m.kr. á árinu 2005 og ríflega tvöfölduðust frá árinu áður þegar þær námu 3.593 m.kr. Fjárfestingatekjur námu 2.143 m.kr. á fjórða ársfjórðungi 2005 en námu 1.264 m.kr. á sama tíma árið 2004.

Bókfærður tjónakostnaður félagsins nam 5.697 m.kr. árið 2005 og jókst um 12,4% frá árinu áður þegar hann nam 5.069 m.kr. Eigin tjónakostnaður hækkar um 5% frá árinu á undan og nam 4.812 m.kr. árið 2005.

Rekstrarkostnaður TM var 1.727 m.kr. árið 2005 og hækkar um rúm 17,3% frá árinu áður þegar hann nam 1.472 m.kr.

Heildareignir TM aukast úr 23.105 m.kr. þann 1. janúar 2005 í 30.777 m.kr þann 31. desember 2005 eða um 33%.