Landsframleiðsla í löndunum 16 sem mynda evrusvæðið dróst saman um 2,5% á fyrsta fjórðungi ársins, eða um nærri 10% á ársgrundvelli, að því er segir í WSJ. Samdráttur í stærsta hagkerfinu, Þýskalandi, var enn meiri, eða 3,8%, sem er mesti samdráttur þar í landi frá árinu 1970.

Þrátt fyrir þetta sýna síðustu mánaðartölur að nú hægi minna á viðskiptalífinu en áður. WSJ hefur eftir hagfræðingi hjá J.P. Morgan í London að samdráttur eins og var á fyrsta ársfjórðungi verði tæplega endurtekinn. Þá segir í frétt WSJ að vaxandi hópur greinenda telji að hagkerfi evrusvæðisins kunni að ná jafnvægi í haust og snúast yfir í vöxt á næsta ári þó að atvinnuleysi muni halda áfram að aukast langt fram á næsta ár.