Mestu viðskipti sem átt hafa sér stað á einum degi á skuldabréfamarkaði á árinu, voru í gær, samkvæmt greiningardeild Íslandsbanka.

Alls nam velta með markflokka ríkisskuldabréfa tæpum 19,2 milljörðum króna. Meðalveltan í vikunni hefur einnig verið mikil, eða um 10,4 milljarða króna á dag.

Viðskipti gærdagsins voru að mestum hluta í verðtryggðum skuldabréfum eða rúmir 15,7 milljarðar króna. Við lok markaðar hafði kaupávöxtunarkrafa þeirra lækkað um 0-8 punkta en miklar sveiflur voru á kröfunni yfir daginn.

Gengið var mjög skarpt inn í sölutilboð fyrri hluta dags og lækkaði ávöxtunarkrafa allra verðtryggðra bréfa töluvert. Upp úr miðjum degi snérist þróunin við og farið var að ganga inn í kauptilboð þannig að hluti lækkunar kröfunnar gekk til baka, ekki síst á lengri enda ferilsins.