Í fyrra var afli íslenskra skipa tæp 1.449 þúsund tonn sem er 300 þúsund tonnum meiri afli en árið áður, að því er fram kemur í frétt frá Hagstofu Íslands.

Aflaverðmæti í fyrra nam rúmum 159 milljörðum króna á verðlagi ársins og hækkaði um tæplega 5,5 milljarða króna frá árinu áður (3,5%). Á föstu verðlagi miðað við verðvísitölu sjávarafurða var aflaverðmæti 3,4% lægra en árið á undan.

Stærsti hluti afla íslenskra fiskiskipa var unninn á Austurlandi, mest uppsjávarafli sem verkaður var þar. Stærsti hluti botnfiskaflans var unninn á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum (48,9%). Hlutur uppsjávarafla var um 68,4% af aflamagninu en 29,4% af verðmæti landaðs afla.

Verðmæti botnfisktegunda var hins vegar tæp 60,6% af heildarverðmæti en að magni aðeins 28,6%.

Meira má lesa um afla íslenskra skipa í fyrra á vef Fiskifrétta.