Stálframleiðsla heimsins sem nú er einna helst drifin áfram af gríðarlegri eftirspurn eftir stáli til iðnframleiðslu í Kína náði nýjum hæðum á mánudag í síðustu viku. Alþjóða járn- og stál stofnunin, IISI, tilkynnti á mánudag að nýtt framleiðslumet hafi verið sett og stálframleiðslan á árinu hafi þá náð einum milljarði tonna.

"Þetta er í fyrsta skiptið sem heimsframleiðslan nær milljarði tonna á einu ári," að því er sagði í tilkynningu IISI á mánudag. Stofnunin byggir á gögnum frá 62 stærstu stálframleiðslulöndum heims. Þar var áætlað að heimsframleiðslan hafi í lok nóvember verið komin í 945,2 milljónir tonna. Með meðalframleiðslu upp á 2,8 milljónir tonna á dag, þá var reiknað út að heildarframleiðslan hafi náð einum milljarði tonna á mánudag. Heildar framleiðslan á stáli í heiminum árið 2003 var hins vegar 968,3 milljónir tonna.

Sérfræðingar í stáliðnaðinum telja að stálframleiðslan haldi áfram að aukast á næsta ári. Stofnun sem sérhæfir sig í að spá fyrir um efnahags-, fyrirtækja-, og þróunarmál, hafði spáð því að framleiðslan 2004 færi yfir 1,018 milljarða tonna og 1,063 milljarða tonna árið 2005.

Búist er við að mikill efnahagsvöxtur í Kína, sem m.a. miðar að því að byggja upp innviði þjóðfélagsins fyrir Ólympíuleikana 2008, muni halda uppi mikilli eftirspurn eftir stáli næstu árin.

Á fyrstu 11 mánuðum þessa árs jókst stálframleiðsla Kínverja um 22,1% og var hún 245,3 milljónir tonna. Í ESB löndum jókst framleiðslan um 5,1%, eða í 177,9 milljónir tonna, en um 5,9% vöxtur var í ríkjum fyrrum Sovétríkja sem framleiddu á þessu tímabili 102,5 milljónir tonna. Þá var um 7,7% aukning í Bandaríkjunum þar sem framleidd voru um 122,4 milljónir tonna og 103,1 milljónir tonna af stáli voru framleidd í Japan þar sem vöxturinn nam 1,8%.