Bandaríski rafbílaframleiðandinn Telsa greindi frá því í gær að fyrirtækið hefði afhent 95.200 bíla á öðrum ársfjórðungi og hefur aldrei afhent fleiri bíla á einum fjórðungi. Voru tölurnar hærri en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir og hækkaði hlutabréfaverð Tesla um rúm 7% á eftirmarkaði og stendur nú í 241,7 dollurum á hlut.

Við lokun markaða í gær hafði gengi bréfa félagsins lækkað um 28% frá áramótum en gengi bréfa félagsins hefur nú hækkað um 35% frá því það náði árslágmarki sínu í byrjun júní þegar það stóð í 179 dollurum á hlut.

Eins og hlutabréfaverð fyrirtækisins gefur til kynna hefur Tesla átt erfitt uppdráttar upp á síðkastið en eftir met fjórðung í afhendingu á síðasta fjórðungi ársins lenti rafbílaframleiðandinn í nýjum vandræðum í framleiðslu og afhendingu bíla sem leiddi til þess að afhendingartölur á fyrsta ársfjórðungi voru undir væntingum markaðsaðila. Fyrirtækið hefur átt í töluverðum vandræðum með framleiðslugetu sína og var það meðal annars ein af ástæðum þess að greinendur Goldman Sachs lækkuðu verðmat sitt á fyrirtækinu um 21% og meta gengi bréfa þess á 158 dollara á hlut sem er um 34% undir núverandi markaðsvirði.

Elon Musk, hin skrautlegi forstjóri Telsa hefur hefur gefið það út að fyrirtækið ætli sér að afhenda á bilinu 360.000-400.000 bíla á þessu ári. Afhendingar á fyrri helmingi þessa árs eru hins vegar einungis tæplega 160.000 bílar og því ljóst að fyrirtækið þurfi að gefa enn frekar í framleiðsluna til að ná markmiðum sínum. Musk var þó ánægður með starfsfólk sitt eins sjá má í færslu hans á Twitter.