Ríkiskaup eru með St. Jósefsspítala í Hafnarfirði til sölu. Frestur til að skila tilboðum í spítalann rennur út þriðjudaginn 27. janúar eða eftir 12 daga. Tilboð verða opnuð klukkan 10 um morguninn. Fasteignin er samtals 2.829 fermetrar og fylgir henni tæplega 4.500 fermetra eignalóð. Spítalinn stendur við Suðurgötu 41 í Hafnarfirði og er því mjög nálægt miðbænum

Fasteignin samanstendur af sjúkrastofum, skrifstofurýmum, aðstöðu fyrir mötuneyti, móttöku og fleiru og einnig er í byggingunni kapella. Fasteignamatið hljóðar upp á ríflega 382 milljónir króna og brunabótamatið er 396 milljónir.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er vandasamt að meta svona eign en líklega er markaðsvirði hennar á bilinu 700 til 900 milljónir króna. Einhverjir þeirra sem skoðað hafa eignina hafa meðal annars sýnt áhuga á því að breyta spítalanum í hótel.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .