Algengt hefur verið í gegnum tíðina að fólk geri sér ferð til útlanda og nýti ferðina til að klára jólagjafakaupin. Eins og staða COVID-19 faraldursins er í dag bendir fátt til þess að Íslendingar muni flykkjast í slíkar utanlandsferðir og má því reikna með að jólavertíðin verði enn annasamari en áður hjá innlendum verslunum.

„Ég myndi halda að þessi verslun færðist í auknum mæli inn á innanlandsmarkaðinn en það má þó líka búast við því að fólk kaupi í einhverjum mæli jólagjafir í gegnum erlendar netverslanir," segir Hermann Helgason, framkvæmdastjóri S4S, og bætir við að vegna COVID-19 ástandsins séu stjórnendur S4S að undirbúa sig undir enn meiri sölu en undanfarin ár yfir jólavertíðina. „Við skynjum það að við þurfum að eiga enn stærri lager en áður. En að sama skapi er ástandið það sama annars staðar í heiminum og því eigum við í harðri samkeppni við erlendar verslanir um að tryggja okkur nógu mikið magn af vinsælum vörum frá okkar birgjum erlendis."

Svava Johansen, eigandi fataverslunarkeðjunnar NTC, tekur í svipaðan streng. „Ef allur viðbúnaður vegna COVID-19 verður með svipuðum hætti og í dag gefur augaleið að fólk mun fara mun minna til útlanda en áður. Því má ætla að jólainnkaupin færist í auknum mæli inn á innlenda markaðinn," segir hún og tekur undir með Hermanni að einhverjir landsmenn kunni að kjósa að kaupa jólagjafir í gegnum erlendar netverslanir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .