Microsoft hefur valið Advania sem samstarfsaðila ársins á Íslandi fyrir árið 2015 en verðlaunin verða afhent á árvissri heimsráðstefnu Microsoft, Worldwide Partner Conference, sem haldin verður í Orlando dagana 12. til 16. júlí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Advania.

„Við leggjum mikla áherslu á að vera í fremstu röð í Microsoft lausnum og þessi viðurkenning  staðfestir að okkur hafi tekist það. Því skiptir hún okkur miklu máli,“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania.

Advania er einn stærsti samstarfsaðili Microsoft í Norður-Evrópu og segir í tilkynningunni að viðurkenningin undirstriki þekkingu og færni þeirra 500 Microsoft sérfræðinga sem starfi hjá fyrirtækinu í þremur löndum, Íslandi, Noregi og Svíþjóð en Advania í Svíþjóð fékk sömu viðurkenningu í fyrra.

„Að þessu sinni veljum við Advania þar sem fyrirtækið skarar fram úr í að bjóða viðskiptavinum sínum Microsoft skýjalausnir hvort heldur sem er um að ræða hugbúnað eins og Office 365 eða viðskiptalausnir eins og Microsoft Dynamics NAV, Microsoft Dynamics AX eða TOK bókhald í áskrift. Þetta lausnaframboð Advania skapar viðskiptavinum fyrirtækisins mikinn ávinning og er í góðu samræmi við framtíðarsýn okkar hjá Microsoft,“ segir Heimir Fannar Gunnlaugsson forstjóri Microsoft á Íslandi.