Ferðaskrifstofan Iceland Express tapaði um 2,7 milljörðum króna í fyrra. Þetta kemur fram í Markaðnum í Fréttablaðinu í dag en félagið hefur þó ekki birt ársreikning sinn fyrri árið 2011.

Í fréttinni er vísað í fyrri frétt Markaðarins frá því í mars þar sem fram kom að Eignarhaldsfélagið Fengur, eigandi Iceland Express, hefði afskrifað hlutafé í Iceland Express upp á rúmlega tvo milljarða króna í lok síðasta árs.

Fengur, sem er í eigu Pálma Haraldssonar, er eigandi Iceland Express en auk þess átti félagið breska flugfélagið Astraeus sem fór í slitameðferð undir lok síðasta árs. Eins og Viðskiptablaðið greindi þá frá var Astraeus fjórða flugfélag Pálma sem fer í gjaldþrot eða slitameðferð.

Fram kemur í frétt Markaðarins að vegna hlutdeildar í afkomu dótturfélaga sinna tapaði Fengur 1,5 milljörðum króna á árinu 2010 og eignarhlutir félagsins í þeim rýrnuðu úr því að vera 3,3 milljarða króna virði í árslok 2009 í að vera 486 milljóna króna virði í lok þess árs. Í áritun endurskoðanda Fengs er vakin athygli á, án þess að gera fyrirvara við, að atburðir sem áttu sér stað eftir reikningsskil hafi valdið „því að rekstrarhæfi félagsins sé brostið nema til komi nýtt eigið fé eða skuldum verði breytt í eigið fé“.