Mikil aukning erlendra ferðamanna er í Reykjavík um jól og áramót á hótelum og stærri gistiheimilum. Rúmlega sex hundruð erlendir ferðamenn voru hér um jólin á 6 hótelum og nokkrum gistiheimilum og er það 70% aukning frá fyrra ári.

Í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar kemur fram að um áramótin verða nær öll hótel borgarinnar opin og mörg gistiheimili og munu a.m.k. 2600 ferðamenn gista þar og er það um 40% aukning frá fyrra ári. Til viðbótar má geta þess að fjölmargir ferðamenn eru hér milli jóla og nýárs án þess að dvelja yfir hátíðisdagana sjálfa. Stærstu hóparnir eru frá Japan, Bretlandi og Bandaríkjunum.