Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, segist vera heillaður af þeim fjárfestingartækifærum sem séu til staðar í Rússlandi um þessar mundir. Þetta kom fram á fundi sem Glitnir hélt í gær þar sem kynntir voru nýmarkaðssjóðir FIM Group Corporation, en bankinn keypti 68,1% hlut í finnska félaginu fyrr á þessu ári og gert er ráð fyrir því að Glitnir muni leggja fram yfirtökutilboð innan skamms. FIM er leiðandi fyrirtæki á sviði eignastýringar og hyggur á frekari vöxt á alþjóðlegum mörkuðum á sviði sjóðastýringar, verðbréfamiðlunar og fyrirtækjaráðgjafar fyrir bæði fagfjárfesta og einstaklinga.

FIM hefur náð öflugri fótfestu á rússneska markaðinum á undanförnum árum og að mati stjórnenda fyrirtækisins hafa hin sögulegu tengsl Finna og Rússa ekki síst skipt máli fyrir framgang þess þar í landi. Fyrsti sjóðurinn sem FIM bauð fjárfestum upp á í hinum svokölluðu nýmörkuðum (e. emerging markets) var einmitt rússneskur verðbréfasjóður sem stofnaður var fyrir níu árum. Síðan þá hefur sjóðum FIM fjölgað gríðarlega; félagið rekur 31 verðbréfasjóð, sem meðal annars fjárfesta á mörkuðum í Brasilíu, Indlandi, Kína, Úkraínu, Suðaustur Asíu auk Rússlands og nema eignir þeirra sjóða samtals um 3 milljörðum evra eða ríflega 270 milljörðum íslenskra króna.

Í máli Raoul Konnos, sjóðsstjóra FIM fyrir fjárfestingar félagsins á mörkuðum í Austur-Evrópu og Tyrklandi, kom fram að hann teldi að vaxtahorfur á nýmörkuðum á þessu ári væru mjög góðar. Þrátt fyrir hrun á hlutabréfamörkuðum í lok febrúarmánaðar, sem byrjaði með 9% lækkun í Kína, var eingöngu um að ræða leiðréttingu, að mati Konnos. Markaðsvirði hlutabréfa á nýmörkuðum væri aftur orðið svipað og það hafði verið áður en lækkunin átti sér stað.

Ástæðan fyrir því að Glitnir hefur ákveðið að bjóða upp á verðbréfasjóði sem einblína á fjárfestingar á nýmörkuðum er í raun ósköp einföld: Á undanförnum árum og áratugum hefur uppgangur rísandi efnahagsvelda á borð við Kína, Rússland, Indland, Brasilíu og Tyrkland gert það að verkum að markaðir þessara landa hafa mun meiri þýðingu fyrir þróun alþjóðahagkerfisins. Hlutfall nýmarkaða af heildarstærð alþjóðahagkerfisins er um þessar mundir talið vera í kringum 25 til 30 prósent, en árið 2050 er gert ráð fyrir því að það hlutfall verði orðið meira en 60%. Á meðan því er spáð að hlutfall vinnandi fólks í Evrópu, Japan og Bandaríkjunum muni annaðhvort lækka eða standa í stað eftir um tuttugu ár, mun vinnandi fólki í Kína, Indlandi og Brasilíu fjölga verulega. Það er því ljóst að mikil fjárfestingartækifæri eru fyrir hendi á þessum mörkuðum.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.