Störfum í Bandaríkjunum fjölgaði um 208 þúsund í nóvember, en það var þriðji mánuðurinn í röð þar sem ný störf voru fleiri en 200 þúsund. Þetta kemur fram í nýrri könnun ADP á einkafyrirtækjum. Opinberar tölur frá stjórnvöldum birtust einnig í gær og samkvæmt þeim voru ný störf 321 þúsund talsins, en þar eru opinber störf tekin með í reikninginn.

Nærri því helmingur þessara nýju starfa varð til hjá fyrirtækjum með færri en fimmtíu starfsmenn, annan mánuðinn í röð. Að mati ADP eru bankar nú farnir að lána litlum fyrirtækjum í meiri mæli sem gerir þeim kleift að ráða fleira fólk, sem sé heilbrigðismerki á hagkerfinu.