Góður dagur var í Kauphöllinni fyrir eigendur hlutabréfa, en úrvalsvísitalan hækkaði um 1,34% og endaði í 1.583,31 stigum. Frá áramótum hefur vísitalan hækkað um 20,78%. Velta með hlutabréf nam 2.019.902.813 krónum í viðskiptum dagsins, sem voru 128 talsins.

Lang mest var hækkun á gengi með bréf Nýherja, eða um 7,58%. Félagið skilaði árshlutauppgjöri í gær , en þar kom fram að fyrirtækið hefði hagnast um 111 milljónir króna á fyrri helmingi ársins og tekjur þess vaxið um 16%. Veltan var þó ekki ýkja mikil, eða einungis 5.506.738 krónur í fimm viðskiptum. Mestu munaði um viðskipti Finns Oddsonar, forstjóra Nýherja, sem keypti bréf fyrir 3.150.000 krónur í dag.

Talsverð hækkun var með bréf Regins, en þau hækkuðu um 2,15% í dag. Nokkur velta var með bréfin, en hún nam 345.456.484 krónum í 20 viðskiptum.

Eins og fyrr segir var ekkert félag sem lækkaði í verði á aðallistanum, en sömu sögu má raunar segja um First North markað Kauphallarinnar. Þar hækkuðu bréf Hampiðjunnar um 3,70% í verði, reyndar þó í einum viðskiptum sem námu 1.400.000 krónum.

Sömu sögu er ekki að segja af skuldabréfamarkaði, en aðalvísitala skuldabréfa lækkaði um 0,19%. Meiri lækkun varð á verðtryggðum bréfum, um 0,25%, en óverðtryggð bréf lækkuðu um 0,3%. Heildarvelta á skuldabréfamarkaði nam 16.031.439.798 krónum.