Lækkandi gengi krónunnar hefur ekki orðið til þess að auka sölu á hrossum til útlanda, að því er fram kemur í útflutningstölum.

Samkvæmt upplýsingum frá Bændasamtökum Íslands hafa verið flutt út 932 hross það sem af er árinu. Á sama tíma í fyrra höfðu verið flutt út 1078 hross.

Útflutningurinn hefur því dregist saman um 146 hross, eða 13,5%.

Gunnar Arnarson, stærsti hrossaútflytjandi landsins, segir að eftirspurn eftir hrossum sé töluvert mikil og sérstaklega eftir betri og dýrari hestum. Tregða hafi verið í útflutningnum í ágúst og september vegna færri flugferða. Töluverð uppsöfnun hafi því orðið á hrossum sem bíði útflutnings.

„Það eru um 500 hross sem bíða útflutnings og því ljóst að gjaldeyristekjurnar fyrir okkur eru töluverðar. Hjá okkar fyrirtæki bíða 300 hross útflutnings en um 200 hross bíða hjá öðrum útflutningsaðilum. Á allra næstu vikum fara fimm stórar vélar með hross til útlanda og það mun væntanlega breyta þessum útflutningstölum til batnaðar.“

Gunnar segir að það sé í rauninni ótrúlegt hvað hestasalan hefur haldist miðað við efnahagsástandið og umræðuna. Hann segir enn fremur að það sé stórsigur fyrir greinina að ekki hafi orðið stórfelldur samdráttur í sölu við þessar aðstæður.

Bandaríkjamarkaður hruninn

Hulda Gústafsdóttir hrossaútflytjandi er á sama máli. Hún segir að mikil eftirspurn sé eftir keppnishrossum en framboðið af miðlungshrossum hafi einnig aukist mikið.

Aðspurð segir Hulda að eftirspurnin hér innanlands sé líka góð og framboð af góðum hestum sé mikið hér heima.

„Við höfum fundið fyrir því upp á síðkastið að útlendingar eru að huga að kaupum með tilliti til lágs gengis krónunnar,“ segir hún.

Hins vegar séu breytingarnar í efnahagslífinu miklar um þessar mundir og erfitt að segja hvert framhaldið verður.

„Útflutningurinn er allur til Evrópu en Bandaríkjamarkaður er alveg hruninn,“ segir Hulda.