Nikkei hlutabréfavísitalan lækkaði um 3% í kauphöllinni í Tokyo í dag og er það mesta lækkun vísitölunnar á einum degi í tíu mánuði. BBC News greinir frá þessu.

Er því meðal annars kennt um að fjárfestar hafi áhyggjur af lækkandi heimsmarkaðsverði á olíu. Einnig er lækkunin rakin til pólitísks óstöðugleika í Grikklandi.

Þá gerðist það í fyrsta sinn síðan í apríl 2009 að verð á olíutunnu í Bandaríkjunum fór niður fyrir 50 bandaríkjadali. Tunnan af Brent Norðursjávarolíu kostar hins vegar um 53 dali.