Hlutabréf í Asíu lækkuðu mikið í dag í kjölfar mikilla lækkana á mörkuðum í Bandaríkjunum í gær. DJ Asia-Pacific vísitalan lækkaði um 4,3%.

Bloomberg fréttaveitan segir lækkunina stafa af því að heimskreppan fari dýpkandi, sem hafi dregið niður hrávöruverð og aukið áhyggjur af því að tekjur fyrirtækja muni hrapa með minni framleiðslu.

Í Japan lækkuðu hlutabréf um 6,4%, í Hong Kong nam lækkunin 4,9%, í Ástralíu 4% og í Singapúr 1,9%. Hlutabréf hækkuðu hins vegar lítillega í Sjanghæ í Kína, eða um 0,3% samkvæmt DJ Shanghai vísitölunni.