Sala á raftækjum í desember jókst um 18,5% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og um 6,1% á breytilegu verðlagi. Verð á raftækjum lækkaði um 10,5% frá desember 2009.

Frá þessu segir í frétt á vef Rannsóknarseturs verslunarinnar . Rannsóknarsetrið telur að skýringu á aukinni sölu raftækja megi rekja til lægra verðs. Sala raftækja hefur farið ört vaxandi frá því um mitt árið 2010.

Landsmenn fata sig upp erlendis

Verð á fötum lækkaði frá desember 2009 en þrátt fyrir það minnkaði sala fataverslana á milli ára. „Bent hefur verið á að ástæðan kunni að einhverju leyti að vera sú að landsmenn hafi farið í verslunarferðir til útlanda fyrir jólin og fatað sig upp. Önnur skýring gæti verið sú að neytendur bíði með fatakaup þar til hefðbundnar útsölur hefjast í ársbyrjun og fataverslun sé dreifðari yfir árið nú en áður var,“ segir í fréttinni.

Þá gerðu landsmenn álika vel við sig í mat um þessi jól en keytpu mun minna af áfengi en í fyrra. Sala áfengis dróst saman um 7% að raunvirði og hefur farið minnkandi fyrir hver jól frá árinu 2007.

Í öðrum verslunum en raftækjaverslunum varð samdráttur í jólasölunni. Samanborið við desember 2009 dróst fataverslun saman um 7,0% á föstu verðlagi, skóverslun um 6,2% og húsgagnaverslun um 7,7%.

Velta í dagvöruverslun jókst um 1,2% á föstu verðlagi í desember miðað við sama mánuð í fyrra og um 1,7% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum dróst velta dagvöruverslana í desember saman um 1,4% frá sama mánuði árið áður. Verð á dagvöru hækkaði um 0,5% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Frétt Rannsóknarseturs verslunarinnar má lesa hér .