Norska fyrirtækið Opera, sem býr til samnefndan netvafra og stofnað var af hinum íslenska Jón Stephenson von Tetzchner, jók tekjur sínar um 32 prósent á öðrum ársfjórðungi þessa árs samanborið við annan ársfjórðung árið 2011. Tekjur félagsins voru 52 milljónir dollara. Þetta kemur fram í frétt á vef E24.

Helst voru það auglýsingatekjur sem hafa aukist en þær voru 13,5 milljónir dollara á síðasta ársfjórðungi miðað við 2,4 milljónir dollara fyrir ári síðan. En opera keypti bandaríska fyrirtækið Mobile Theory í Bandaríkjunum og 4th Screen Advertising í Englandi á fyrstu mánuðum þessa árs.

Þrátt fyrir auknar tekjur var hagnaður af starfseminni minni en á sama tíma í fyrra. Hagnaðurinn nam 6,7 milljónum dollara miðað við 8,14 milljónir á sama tíma í fyrra. Á öðrum ársfjórðungi þessa árs fóru 4,3 milljónir dollara í kostnað við að skipta um höfuðstöðvar og vegna starfslokasamninga. Þess má geta að Jón hætti störfum fyrir fyrirtækið í lok júní á þessu ári en hann sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í júlí að hann ætti þó enn um 10% hlut í fyrirtækinu.

Opera og Google tilkynntu einnig í morgun undirritun samnings  þess efnis að leitarvél Google verði leitarvél Opera vafrans. Í samningnum er einnig kveðið á um markaðssetningu á ýmsum vörum og þjónustum Google. Samningurinn gildir til 1. ágúst 2014.