*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 18. september 2017 08:07

Mikil verðlækkun gríðarlegt högg

Framkvæmdastjóri hjá Skinney-Þinganes segir mikla verðlækkun síldarafurða koma til af pólítískum ástæðum.

Ritstjórn

Nú þegar síldarvertíðin er að hefjast sjá útgerðir fram á yfir 30% verðfall á síldarafurðum segir Ásgeir Gunnarsson, framkvæmdastjóri veiða og vinnslu hjá Skinney-Þinganesi á Höfn í Hornafirði.

Byrjað er að landa síld í bænum og kom skip fyrirtækisins Ásgrímur Halldórsson með 900 tonn sem veidd var á Héraðsflóa. Í bænum er fyrirtækið með afkastamikið vinnsluhús þar sem mannshöndin kemur helst að við sýnatöku, því að öðru leyti sjái hátæknibúnaður um vinnsluna að því er Vísir greinir frá.

„Við vorum fljótir að taka makrílinn. Hann var stutt hérna frá, góður fiskur. Nú er það bara síldin næstu vikur,“ segir Ásgeir sem segir makrílvertíðina hafa gengið einstaklega vel þó fyrirtækið hafi framlengt hana með viðbótarkvóta, en næsta skref er svo loðnan.

Ekkert smeykir

„Við erum ekkert smeykir þó að loðnan finnist ekki að hausti til. Eins og við sáum í vetur, þá er nóg af henni. Við erum bjartsýnir á að það verði áfram.“ Auk Ásgríms á fyrirtækið uppsjávarskipið Jónu Eðvalds sem er komið langt með sínar makrílveiðar en þær hófust upp úr miðjum júlí, en Ásgeir segir blikur á lofti á mörkuðum.

„Til að mynda er síldin núna niður um 30 til 35 prósent milli ára, sem er náttúrlega gríðarlegt högg, því kvótar eru ekkert stórir," segir Ásgeir. ,,Það er ekki síst út af pólitískum aðstæðum í heiminum, - í Bandaríkjunum, - Rússland er lokað á okkur - og í Evrópu er það Brexit. Þannig að þetta hefur allt mikil áhrif.“