Mikill áhugi er fyrir uppbyggingu á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli, ofan við Akureyri. Einkaaðilar hafa til að mynda lýst yfir áhuga á að reisa hótel á svæðinu, að því er fram kemur á norðlenska miðlinum Vikudegi.

Samkvæmt deiliskipulagi á að reisa nýtt þjónustuhús á svæðinu og kláf, auk 100 herbergja hótels og frístundabyggðar. Haft er eftir Guðmundi Karli Jónssyni, forstöðumanni í Hlíðarfjalli, að nokkrir hafi sýnt því áhuga að reisa hótel á svæðinu, en það sé háð því að aðstaðan á svæðinu verði bætt. Guðmundur telur raunhæft að einkaaðilar komi að uppbyggingunni, sveitarfélagið hafi hins vegar takmarkaða burði til að reisa hótel og frístundabyggð í fjallinu.

Bæjarráð Akureyrar heimilaði fyrir skömmu Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar að skoða möguleikann á því að stofna félag í eigu opinberra og einkaaðila með það að markmiði að byggja upp á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélagsins, hefur sagt að hugmyndir séu uppi um að byggja upp öflugt lyftukerfi og koma fyrir kláf á toppi fjallsins. Þá verði hótel, veitingastaðir og aðrir gistimöguleikar á svæðinu. Margir aðilar, fjárfestar, hagsmunaaðilar og fleiri, bæði innlendir og erlendis frá, þyrftu þó að koma að málinu ef af slíkum áformum eigi að verða, að mati Þorvaldar.

Fleiri hugmyndir eru uppi, en á dögunum lýstu forsvarsmenn sprotafyrirtækisins Zalibunu ehf. því yfir að þeir vildu fjármagna og reisa 130 milljóna króna sleðarennibraut í Hlíðarfjalli. Um 1.300 metra langa rennibraut er að ræða sem yrði opin yfir sumartímann. Davíð Örn Símonarson, framkvæmdastjóri Zalibunu, sagði í samtali við Fréttablaðið að rennibrautin yrði fjármögnuð með 90 milljóna króna hlutafjáraukningu og 40 milljóna króna lánum. Viðræður hafi staðið yfir við ýmsa fjárfesta, þar á meðal norðlenska fjárfestingarsjóðinn Tækifæri hf., sem er meðal annars í eigu KEA og Akureyrarkaupstaðar.