„Það er áhugavert hve munurinn er gífurlegur á milli atvinnugreina. Það kemur að vísu ekki mjög á óvart að bjartsýni í útflutningsgreinum sé nokkur en aftur á móti mælast fyrirtæki í verslun og þjónustu ansi vel. Þótt einhverjar verslanir, sérstaklega miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu, hafi orðið fyrir barðinu á heimsfaraldrinum þá er ljóst að neysla Íslendinga er að vega upp á móti því fyrir greinina,“ segir Lovísa A. Finnbjörnsdóttir, sviðstjóri fjármálaráðgjafar hjá Deloitte, um fjármálastjórakönnun ráðgjafafyrirtækisins.

Könnunin nær til tæplega 1.600 fjármálastjóra í nítján löndum. Könnunin er lögð fyrir tvisvar á ári, það er að vori og síðan að hausti, en tímabil hennar nú spannaði miðjan septembermánuð. Síðast var hún framkvæmd í mars eða um það leyti sem fyrsta bylgja faraldursins stóð sem hæst. Á ný gerðist það að gangur pestarinnar var neikvæður eftir að könnunin var lögð fyrir.

Engum komi síðan á óvart að hljóðið sé verst í ferðaþjónustufyrirtækjum. Þar segjast þrír af hverjum fjórum vera svartsýnir á framhaldið og að tekjuflæðið verði ekki komið í samt horf fyrr en í allra fyrsta lagi á síðari hluta næsta árs. Um fimmtungur svarenda, þá þvert á greinar, telur að áhrif COVID-19 á tekjuflæði verði að mestu úr sögunni á þriðja ársfjórðungi næsta árs. 15% telja aftur á móti að það gerist ekki fyrr en árið 2022 í fyrsta lagi. Um sex prósent svarenda hér á landi komu úr ferðaþjónustunni og því ljóst að einhver fyrirtæki úr öðrum greinum eru svartsýn á stöðuna. Þá svöruðu 9% því að þau treystu sér ekki til að slumpa á hvenær áhrifa faraldursins hætti að gæta.

Sem fyrr er stefna fjármálastjóra sem svara könnuninni á að hagræða í rekstri og var það fyrsta áherslan hjá fjórum af hverjum fimm. Stafrænar lausnir eru síðan næstar á blaði. Færri svara því að þeir hafi í hyggju að minnka skuldsetningu. Almennt er ekki mikill vilji til fjárfestinga en um helmingur segir að stefnt sé að því að auka fjárfestingu í umbótum viðskiptaferla.

„Það er mjög mikil aukning hjá þeim sem telja lántöku í bönkum vera hagkvæma leið til fjármögnunar, enda hafa vextir lækkað og menn virðast meta það svo að sveigjanleikinn þar sé meiri. Þeim sem telja útgáfu skuldabréfa vera hagkvæma leið til fjármögnunar fer fjölgandi en við erum enn talsvert undir Evrópumeðaltalinu. Flestir telja innri fjármögnun sem fyrr hagkvæmasta,“ segir Lovísa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .