Mikill verðmunur er á vörum og þjónustu á Íslandi og í evruríkjum. Þetta benda samtökin Já Ísland á í tilkynningu. Samtökin berjast fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Hagstofa Íslands tók saman gögn fyrir samtökin sem sýna hækkun og lækkun á verði á vörum og þjónustu frá árinu 2008 til dagsins í dag. Um er að ræða samræmda vísitölu neysluverðs sem Eurostat, Hagstofa Evrópusambandsins, tekur saman reglulega. Samtökin segja að á tölunum megi sjá gífurlegan mun á þróun verðlags hér á landi og í Evruríkjunum.

Á tímabilinu 2008 til 2012 hækkaði verð á vörum og  þjónustu á Íslandi um 34,9% en um 5,8% á evrusvæðinu. Þá hækkaði matarkarfan á Íslandi um 32% en um 5,2% á evrusvæðinu. Föt og skór hér á landi hækkuðu um 31,4% en lækkuðu um 7,9% á evrusvæðinu.