Mikill verðmunur er nú á íbúðum eftir því hvar þær eru staðsettar á landinu og hefur þessi verðmunur aukist mikið á undanförnum 18 árum. Árið 1990 var húsnæðisverð hæst á höfuðborgarsvæðinu og var meðalfermetraverð þá 65 þúsund krónur. Ódýrastur var hinsvegar fermetrinn á Vesturlandi sem kostaði 35 þúsund krónur að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

Er það 46% lægra verð en greitt var fyrir fermetrann að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu. 18 árum síðar hefur munurinn hinsvegar heldur aukist. Íbúðir  voru á síðasta ári ódýrastar að meðaltali á Vestfjörðum þar sem greiða þurfti 67 þúsund krónur fyrir fermetrann. Það er aðeins ríflega fjórðungur þess sem greiða þurfti á höfuðborgarsvæðinu en þar kostaði meðalfermetrinn 261 þúsund á síðasta ári segir í Morgunkorni Glitnis.