Lýsi hf. hagnaðist um 244,5 milljónir króna á árinu 2009. Það er töluverður viðsnúningur frá árinu áður þegar fyrirtækið tapaði 1,6 milljarði króna. Eigið fé þess er þó enn neikvætt um 826,6 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið er -19%. Þetta kemur fram í ársreikningi Lýsis fyrir 2009.

Rekstartekjur Lýsis jukust um 1 milljarð króna á milli ára og voru 4,8 milljarðar króna á árinu 2009. Eignir fyrirtækisins  nema 4,3 milljörðum króna en skuldir þess 5,1 milljarður króna. Þær lækkum um 1,3 milljarð króna á milli ára.

Í skýringu um rekstarhæfi Lýsis í ársreikningnum segir að rekstur félagsins hafi gengið vel á árinu 2009 og að hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) hafi verið 967,1 milljónir króna. Þá segir að áætlanir bendi „til þess að rekstur félagsins muni áfram ganga vel. Öll langtímalán félagsins eru í skilum.  Stjórn félagsins telur félagið vel rekstrarhæft enda öll ytri rekstrarskilyrði félaginu hagstæð.“

Keypt í miðju bankahruni

Fyrrum eigandi Lýsis, Hnotskurn ehf. (félag í eigu Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar og Katrínar Pétursdóttur forstjóri Lýsis) lenti í miklum vandræði við fall bankanna þar sem félagið átti mikið af hlutabréfum í FL Group.  Ívar ehf., félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, keypti 83,8% hlut þess í Lýsi í miðju bankahruninu á 234,6 milljónir króna.

Ívar ehf. var gert að greiða stjórnvaldssekt upp á 12 milljónir króna í október síðastliðnum vegna brota á samkeppnislögum þegar félagið rann saman við Lýsi.