Halli á vöruskiptum við útlönd var 11,3 milljarðar króna í apríl, samkvæmt bráðabirgðatölum. ?Þetta er meiri halli en samanlagður halli á fyrsta ársfjórðungi þessa árs sem var rétt rúmir níu milljarðar króna. Þessi mikli halli í aprílmánuði virðist aðallega mega rekja til minni útflutnings,? segir greiningardeild Glitnis sem bendir á að miklar sveiflur geta verið í utanríkisviðskiptum milli mánaða. ?Viðskipti með stærri hluti eins og skip og flugvélar hafa til dæmis töluverð áhrif á mánaðarlegar tölur um utanríkisviðskipti,? segir hún.

Hún segir þrátt fyrir mikinn vöruskiptahalla í apríl má gera ráð fyrir að hallinn dvíni þegar líður á árið eins og þróunin hefur reyndar verið undanfarna mánuði. ?Útflutningur áls mun aukast jafnt og þétt þegar líður á árið samfara því sem ný álverksmiðja verður tekin í notkun á Reyðarfirði í áföngum. Að sama skapi má ætla að innflutningur dragist saman.

Enn er töluverður innflutningur á fjárfestingarvöru sem gera má ráð fyrir að dragist hratt saman þegar framkvæmdum tengdum stóriðju á Austurlandi lýkur á árinu. Einnig má ætla að hægja muni á innflutningi neysluvöru þegar líður á árið. Á heildina litið má því gera ráð fyrir frekari bata á vöruskiptum við útlönd á þessu ári, og að vöruskiptahalli reynist tiltölulega lítill á næsta ári,? segir greiningardeildin.