Töluverð aukning var í nánast öllum flokkum verslunar á milli ára ef marka má niðurstöður Rannsóknarseturs verslunarinnar sem birta voru í dag. Mikil velta var í flestum flokkum varanlegra og hálf-varanlegra neysluvara í apríl. Sem dæmi eykst verslun með húsgögn og byggingavöru til muna milli ára.

Húsgagnasala óvenju mikil

Samkvæmt gögnum setursins er apríl að jafnaði ekki stór mánuður í húsgagnaverslun en í apríl síðastliðnum var húsgagnaverslun þó nokkuð yfir meðaltali síðustu 12 mánaða. Velta húsgagnaverslunar var 46% meiri á breytilegu verðlagi í apríl samanborið við sama mánuð í fyrra og 48% meiri á föstu verðlagi. Verðlag húsgagna hefur lækkað um 1,6% frá apríl 2015 en um 0,8% ef síðustu 12 mánuðir eru bornir saman við sama tímabil þar á undan.

Athyglisvert er að dagvöruverslun var talsvert meiri í apríl síðastliðnum heldur en í apríl í fyrra. Þetta er þrátt fyrir að páskar hafi verið í apríl í fyrra en ekki á þessu ári. Eins ber velta í áfengisverslun með sér að þrátt fyrir tímasetningu páska hafi sala áfengis síður verið minni en í fyrra. Er það til merkis um stöðugan vöxt í sölu á mat og drykk.

Nokkuð hægir á vexti raftækjaverslunar en 24% meiri sala var í stórum/hvítum raftækjum samanborið við sama mánuð í fyrra á meðan verslun með lítil raftæki (svokallaðar brúnvörur) dróst saman um 3,4% á breytilegu verðlagi. Þá var verslun með farsíma 23% meiri en í apríl 2015 og verslun með tölvur jókst um hálft prósent frá fyrra ári. Verðlag raftækja fer heldur lækkandi en verðvísitölur allra flokka raftækja lækka um 3-5% frá sama tíma í fyrra

Gott tíðarfar og vænkandi hagur landsmanna

Rannsóknarsetrið telur að hugsanlega megi rekja vaxandi verslun með mat og drykk og ýmsar sérvörur til hlýnandi veðurfars. Samkvæmt Veðurstofunni var tíðarfar nokkuð gott suðvestanlands í apríl síðastliðnum og betra en í apríl 2015.

Með hækkandi sól eykst byggingavöruverslun að vanda. Velta byggingavöruverslunar í apríl var 32% meiri á breytilegu verðlagi en í sama mánuði árið 2015 og 31% meiri á föstu verðlagi. Einnig má tengja aukna veltu í byggingavöruverslun við vænkandi hag landsmanna og vaxandi kaupmátt. Verðlag byggingavöru hefur hækkað um 1,5% frá apríl í fyrra.