Markaðsaðilar á hlutabréfamarkaði virðast hafa tekið vel í fréttir dagsins af losun fjármagnshafta. Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,6% í 2,8 milljarða króna viðskiptum. Hlutabréfavísitala GAMMA fór í fyrsta sinn yfir 300 stig í dag og hefur þrefaldast frá árslokum 2008.

Mesta hækkunin á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var í bréfum Nýherja, en verð þeirra hækkaði um 9,7% í 5 milljón króna viðskiptum. TM, Marel og Reginn hækkuðu öll um 2,5%. HB Grandi lækkaði um 1,6% í dag, en í morgun greindi Fréttablaðið frá því að mikill kuldi í hafinu umhverfis Ísland virðist hafa haft áhrif á útbreiðslu makríls.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,3% í dag í 7,3 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,1% og sá óverðtryggði um 0,7%.