Á árinu sem nú er að líða hafa mörg félög í Kauphöllinni hækkað verulega í verði, en miðað við leiðrétt dagslokaverð hafa alls átta félög hækkað um 50% eða meira á árinu. Af þessum átta eru þrjú félög sem hafa hækkað meira en 100% á árinu og eru það Landsbankinn með rúmlega 112% hækkun, Bakkavör með rúmlega 110% hækkun og FL Group með tæplega 102% hækkun.

Í Hálffimm fréttum KB banka er bent á að öll þessi félög tekið miklum breytingum á árinu sem skýrir stóran hluta þessara miklu hækkana. Sem dæmi má nefna að Landsbankinn tók yfir hluta af eignum Burðaráss þegar því félagi var skipt upp og svo hefur Landsbankinn einnig staðið í töluverðum fjárfestingum erlendis á árinu. Hjá Bakkavör ber hæst kaup félagsins á Geest í mars og sameining þessara tveggja félaga, sem hefur gengið mjög vel. FL Group er félag sem hefur gjörbreyst á árinu og er nú fjarfestingafélag en var að mestu félag í ferðaþjónustu áður. Sem dæmi á FL Group nú hluti í Íslandsbanka, Kaupþingi banka, Landsbankanum og Straumi-Burðarás.

Önnur félög sem hafa hækkað meira en 50% á árinu eru Dagsbrún með rúmlega 87% hækkun, Kaupþing banki með tæplega 69% hækkun, Straumur - Burðarás með rétt rúmlega 67% hækkun, Íslandsbanki með rúmlega 59% hækkun og að lokum Össur með 50% hækkun.

Aðeins þrjú félög í Kauphöllinni hafa lækkað í verði á árinu. Mest er lækkunin á bréfum Fiskeldis Eyjafjarðar, eða 80% lækkun, en það félag hefur átt í verulegum erfiðleikum í ár og var hlutafé félagsins meðal annars fært niður um 80% á árinu. Næst mest var lækkunin á bréfum Flögu Group eða rúmlega 24%. Flaga hefur átt í rekstrarerfiðleikum um langt skeið en síðasta uppgjör félagsins sýndi mörg batamerki og í kjölfarið tók gengi hlutabréfa félagsins góðan kipp upp á við. Gengi bréfanna hefur hækkað um rúm 28% á síðasta fjórðungi ársins en fyrir þessa hækkun hafði gengi bréfa Flögu lækkað um rúmlega 50%.

Þriðja félagið sem hefur lækkað í verði á árinu er SÍF og hafa hlutir í því félagi lækkað um rúm 16% á árinu. Hefur SÍF verið að ganga í gegnum skipulagsbreytingar á þessu ári til að skerpa á sinni kjarnastarfsemi. Þá hefur óhagstætt hráefnaverð verið félaginu þungt í skauti segir í Hálffimm fréttum KB banka.