Mörg vannýtt tækifæri eru til að minnka útgjöld ríkisins sem leiðir samt hvorki til skertrar þjónustu né frestunar á fjárfestingu í mikilvægum innviðum. Talið er að hagræða megi í ríkisrekstri um tugi milljarða árlega, án skertrar þjónustu. Aðlögun í rekstri ríkisins frá árinu 2009 hefur að stærstum hluta falist í auknum skatttekjum og samdrætti í fjárfestingu en ekki bættri nýtingu á fjármunum. Þetta kemur fram í greiningu Viðskiptaráðs Íslands sem var gefin út fyrir skemmstu.

Innleiðing hagræðingartillagna gengið hægt

Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar skilaði þann 11. nóvember 2013 af sér 111 tillögum til hagræðingar í ríkisrekstri. Af þeim eru 67 tillögur til að auka skilvirkni í rekstri ríkisins án þess að draga úr þjónustu. „Það ætti að leggja meiri áherslu á sértækar markvissar aðhaldsaðgerðir og þessar hagræðingartillögur eru eitt skref í þá átt,“ segir Hrafn Steinarsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka. Undir þetta tekur dr. Gunnar Ólafur Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. „Ég held að það sé fullt tilefni til að skoða þessar tillögur vandlega og grípa til aðgerða,“ segir Gunnar.

Innleiðingu á tillögum hagræðingarhópsins hefur hins vegar sums staðar miðað hægt að mati Arnars Þórs Mássonar, sérfræðings hjá forsætisráðuneyti. „Það getur þurft mikið samráð þannig að innleiðingarferillinn getur orðið nokkuð þungur,“ segir Arnar. Innleiðing tillagna hagræðingarhópsins hjá innanríkisráðuneyti hafi þó gengið ágætlega og margar af tillögunum séu í undirbúningi eða vinnslu. Þar að auki getur aukin hagræðing í sumum tilfellum verið tæknilega flókin og kallað á breytingu á kerfum sem kunna að vera tregbreytanleg af ýmsum ástæðum.

Miklir fjármunir í húfi

Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir ljóst að mjög miklir hagsmunir séu í húfi með bættri nýtingu fjármuna. „Tillögur hópsins geta sparað tugi milljarða árlega í ríkisrekstrinum án þess að þjónusta sé skert. Í þeim felst til dæmis þjónustustýring og breytt fjármögnun í heilbrigðismálum, sem hefur skilað verulegum ábata í grannríkjum okkar. Útgjöld til heilbrigðismála nema um 140 milljörðum króna í ár,“ segir Björn.

Hann telur helstu tækifærin til aukinnar hagræðingar felast í heilbrigðis- og menntakerfi, en tækifærin séu mjög víða í ríkisrekstrinum. „Þá eru einnig lagðar til endurbætur á opinberum innkaupum, en sparnaður vegna þeirra gæti numið um 10 ma. kr. á ári. Það ætti því að vera í forgangi hjá stjórnvöldum að tryggja að tillögurnar verði að veruleika,“ segir Björn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .