Það er enn hægt að velja úr mörgum ódýrum ferðum til Sankti Pétursborgar í sumar, þótt það styttist í að ferðatímabilið hefjist. Óvissuástandið í landinu hjálpar ekki segir talsmaður Icelandair.

Í byrjun þessa árs kostaði ódýrasta ferðin til Sankti Pétursborgar í ágúst rúmar fimmtíu þúsund krónur samkvæmt verðkönnun Túrista . Núna er hins vegar fjöldi brottfara Icelandair til borgarinnar á rúmar tuttugu þúsund krónur og farið, báðar leiðir, í mörgum tilvikum á 40.830 kr. Til samanburðar er varla hægt að finna sumarfargjöld til Spánar, Ítalíu og Sviss á undir fimmtíu þúsund krónur.

Aðspurður um hvort þessi lágu verð séu til marks um minnkandi eftirspurn eftur ferðum til Rússlands segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við Túrista, það vera alveg ljóst að óvissuástand, eins og það sem ríkir í málefnum Rússlands og Úkraínu, hjálpi almennt ekki í sölu- og markaðsstarfi.