Grikkland er ein af vöggum vestrænnar menningar og þótt ef til vill sé heldur djúpt í árinni tekið að halda því fram að landið ógni efnahagslegri tilvist hins vestræna heims nú um stundir er ljóst að þeir eru margir í heimi stjórnmálanna og fjármálanna sem ekki munu sofa rólega fyrr en búið er að finna varanlega lausn á efnahagsvanda landsins. Margir óttast þjóðargjaldþrot Grikklands, þótt ríki geti tæknilega ekki orðið gjaldþrota telst ríki sem ekki getur staðið við skuldbindingar sínar – eða vill það ekki – vera gjaldþrota, og áhrif þess á stöðu annarra ríkja sem einnig hafa orðið fyrir efnahagslegum brotsjó á undanförnum árum. Þá óttast margir að náist ekki að koma grísku þjóðarskútunni á flot muni grafa verulega undan Myntbandalagi Evrópu (MBE) og evru samstarfinu. Sumir ganga jafnvel svo langt að fullyrða að gjaldþrot Grikklands muni verða banabiti evrunnar. Óvist er hvort slíkir spádómar muni ganga eftir en ljóst er að mikið ríður á að koma í veg fyrir strand þjóðarskútunnar.

Það væri að æra óstöðugan að reyna að rekja allt það sem gengið hefur á í grískum efnahagsmálum síðan umheiminum varð ljóst hversu alvarleg staða landsins var fyrir tæpum tveimur árum. Um sinn virtist sem hið versta væri afstaðið og augu umheimsins beindust tímabundið að löndum Íberíuskaga en síðan kom í ljós að gríska skútan stefnir beint í strand og kastljósið beindist aftur austur á bóginn. Matsfyrirtækin hafa veitt landinu lægstu lánshæfiseinkunn sem fyrirfinnst á byggðu bóli og ávöxtunarkrafa á grísk ríkisskuldabréf hefur sleikt 20% markið auk þess sem evrópskir fjármálaráðherrar, sem í raun hafa öll ráð Grikkja í hendi sér, hafa skerpt tóninn verulega og sagt Grikkjum að til þess að fleiri neyðarlán verði afgreidd þurfi þeir einfaldlega að kyngja því beiska meðali sem að þeim er rétt.

Vatn á myllu andstöðunnar

Þessi aukna harka hefur eins og nærri má geta fallið í grýttan jarðveg á meðal hins almenna Grikkja sem flestir sjá fram á enn meiri lífskjararýrnun en þá sem þegar hefur átt sér stað á undanförnum árum. Hin mikla andstaða almennings hefur eðlilega reynst vatn á myllu stjórnarandstöðu landsins sem hefur séð sér leik á borði og þjarmað verulega að ríkisstjórn Georgios Papandreou, sem tók við völdum haustið 2009 og kom í raun upp um hina slæmu stöðu gríska þjóðarbúsins. Það má því ef til vill heimfæra hina fleygu setningu um brennuvargana sem baula á slökkviliðið upp á grísk stjórnmál þessa dagana.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak undir Tölublöð.