Afkoma Landic Property Denmark, sem áður hét Atlas Ejendomme, var slæm í fyrra og nam tap félagsins fyrir skatta 258,4 milljónum danskra króna eða um 4,2 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi íslensku krónunnar nú, en um 3,1 milljarði sé miðað við gengi hennar um áramótin.

Þegar tekið hefur verið tillit til jákvæðrar skattfærslu upp á 80 milljónir danskra króna var niðurstaða ársins tap upp á 178,6 milljónir danskra, á móti 25 milljóna króna hagnaði árið áður, og var eiginfjárhlutfall félagsins komið niður í 3,2% um áramótin síðustu.

Í greinargerð stjórnenda félagsins með ársreikningi þess til dönsku ársreikningaskrárinnar segir að afkoman sé „óviðunandi“ og tekið er fram að félagið hafi fengið stuðningsyfirlýsingu frá Landic Property hf. sem muni tryggja dótturfélaginu nauðsynlegt lausafé og fjármagn til áframhaldandi reksturs þess.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .