Eignarhaldsfélagið Snæfugl hagnaðist um 1,3 milljarða króna á síðasta ári vegna sölu á 1,3% hlut í Síldarvinnslunni, sem var skráð á markað í maí.

Það segir þó ekki alla söguna, þar sem 4% hlutur félagsins sem eftir er hækkaði um 74% frá skráningu Síldarvinnslunnar á markað og var metinn á 6,9 milljarða um áramótin. Hluturinn er hins vegar á kostnaðarverði í ársreikningi Snæfugls, sem nemur 170 milljónum króna. Það sem af er þessu ári hafa bréf Síldarvinnslunnar þó lækkað um ríflega 10%.

Snæfugl er í meirihlutaeigu Halldórs Jónassonar en Jóhannes Pálsson á um fjórðung. Auk þess á Kaldbakur 15% og Björgólfur Jóhannsson 5% hlut. Þá á Snæfugl 5,3% hlut í SVN eignafélagi sem er ríflega 300 milljóna króna virði.

SVN eignafélag heldur utan um 14,5% hlut í Sjóvá en eignarhluturinn var greiddur í arð til hluthafa Síldarvinnslunnar fyrir skráninguna í fyrra.