Á síðasta ári heimsóttu tæplega 800 þúsund erlendir ferðamann landið en til samanburðar sóttu 460 þúsund ferðamenn landið heim fyrir fjórum árum. Spár gera nú ráð fyrir því að eftir tvö ár verði þessi fjöldi kominn í 1,2 milljónir.

Helga Árnadóttir, er formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Í viðtali í Viðskiptablaðinu er hún spurð að því hvort íslensk ferðaþjónusta sé í stakk búin til að taka við þessum fjölda?

„Það er svolítið merkilegt að hugsa til þess að á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2001 var yfirskrift fundarins "Milljón ferðamenn árið 2015, hvað þarf til?" segir Helga.  "Auðvitað þótti mönnum þetta fjarstæðukennt þá en nú er þetta raunveruleikinn sem blasir við okkur.

Ef horft er á alþjóðlegar spár um fjölda ferðamanna í heiminum þá er talað um að það sé um milljarður manna að ferðast um heiminn í dag en að eftir nokkur ár verði þessi tala kominn í tvo milljarða. Vöxturinn er því almennt mjög mikill í þessari grein. Í samhengi við þessar tölur er ekkert óeðlilegt að áætla að vöxturinn verði áfram mikill hérlendis.

Síðustu þrjú ár hefur ferðamönnum fjölgað um 20% á ári hér heima. Þessi mikli vöxtur þýðir að við þurfum að vera mjög skipulögð. Öll stefnumótun í ferðaþjónustunni þarf að vera skýr. Hvernig við ætlum að byggja ferðaþjónustuna upp til langframa og þá á ég ekki bara við hversu mörg hótel við ætlum að byggja heldur líka hvernig við ætlum að styrkja innviðina eins og til dæmis alla grunnþjónustu við ferðamenn á ferðamannastöðum og í sveitarfélögum víðs vegar um land."

Í Viðskiptablaðinu er viðtal við Helgu Árnadóttur, formann Samtaka ferðaþjónustunnar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .