Velta með hlutabréf í Kauphöll Íslands hefur verið mikil síðustu mánuði en annar ársfjórðungur var sá fimmti veltumesti frá upphafi. Veltan síðustu þrjá mánuði hefur þó verið áberandi minni en mánuðina þar áður, allt frá september í fyrra. Í Morgunkornum Íslandsbanka kemur fram að í vetur voru mikil viðskipti utan Kauphallarinnar vegna afskráningar fyrirtækja og stærri eignabreytinga hjá mörgum af helstu félögum Kauphallarinnar. Stöðutaka í hlutabréfum var áberandi mikil á þeim tíma, sem að verulegu leyti var skuldsett. Þær stöðutökur eru ekki eins skuldsettar eftir hækkun á verði hlutabréfa í vetur og hefur því dregið úr fjármögnunaráhættu. Áfram má búast við innlausn hagnaðar eftir svo skarpa hækkun og eins að sumir fjárfestar nýti rýmri eignastöðu til frekari stöðutöku. Í það heila eigum við þó ekki von á jafn miklum stöðutökum í hlutabréfum og var síðasta vetur.