Íbúðaverð á landinu öllu hefur hækkað um 0,4% á milli mánaða, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun. Greining Íslandsbanka bendir á það í Morgunkorni sínu í morgun að íbúðaverðið hafi hækkað um land allt um 4,5% undanfarna 12 mánuði. Á sama tíma hefur verðlag hækkað um 4,8%.

Samkvæmt þessum tölum virðast áhyggjur af því að verðbóla sé að myndast á íbúðamarkaði vera óþarfar þó svo að verð húsnæðis sé undir áhrifum af höftunum til hækkunar líkt verð annarra krónueigna, segir Greining Íslandsbanka og bætir við að dregið hafi úr hækkunartakti íbúðaverðs. Á sama tíma í fyrra hafi íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 8,4%.

„Ástæðan fyrir því að hægt hefur á hækkunum á íbúðamarkaði er sú að hratt hefur dregið úr kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna en það hefur sýnt sig að mikil fylgni er að milli þróunar ráðstöfunartekna og íbúðaverðs. Þá hafa vextir hækkað og hagvaxtarhorfur hafa versnað sem hefur áhrif á væntingar og fjárfestingaráform,“ segir í Morgunkorninu.