Mikið fjör hefur verið á skuldabréfamarkaði það sem af er degi í kjölfar birtingar á vísitölu neysluverðs fyrir janúar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en kl. 11 í morgun hafði töluverð velta verið með skuldabréf. Þannig nam veltan með ríkisbréf um 5,3 milljörðum króna og velta með íbúðabréf um 5,5 milljörðum króna.

„Kaupáhugi hefur einkennt viðskipti með fyrrnefndu bréfin en söluþrýstingur viðskipti með þau síðarnefndu,“ segir í Morgunkorni.

„Er söluþrýstingurinn skiljanlegur með hliðsjón af því að í hönd fer mánuður þar sem höfuðstóll íbúðabréfanna mun lækka jafnt og þétt sem nemur lækkun VNV í janúar. Hefur krafa íbúðabréfa þannig hækkað um 8 - 49 punkta í viðskiptum morgunsins en krafa ríkisbréfa lækkað um 8 - 16 punkta á sama tíma.“

Þá kemur fram að verðbólguálag á markaði hefur lækkað um nærri 0,6 prósentustig horft til 3ja ára, en um 0,3% prósentur horft til 9 ára. Verðbólguálagið er nú 4,2% til 3ja ára og 4% til 9 ára.