Fulltrúar Seðlabankans lögðu fram nýtt minnisblað um lagahlið Icesave-samninganna fyrir fjárlaganefnd Alþingis í morgun. Minnisblaðið er efnislega hið sama og minnisblað lögfræðinganna tveggja sem kynnt var nefndum þingsins fyrir helgi, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Það þýðir með öðrum orðum að Seðlabankinn stendur við þá hörðu gagnrýni á Icesave-samningana sem þar kom fram.

Formaður utanríkismálanefndar, Árni Þór Sigurðsson, gagnrýndi minnisblaðið í samtali við Ríkisútvarpið í gær og sagði að það hefði ekki verið  álit bankans heldur persónulegt álit lögfræðinganna tveggja sem settu nafn sitt undir það, þ.e.a.s. þeirra Sigríðar Logadóttur og Sigurðar Thoroddsen.

Seðlabankinn gaf út í gær að unnið væri að endanlegu lögfræðilegu áliti bankans um Icesave og var það, sem fyrr sagði, kynnt fjárlaganefnd þingsins í morgun.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er það efnislega óbreytt.