Minnst spilling er talin vera á Íslandi, Nýja-Sjálandi og í Finnlandi samkvæmt nýrri spillingarvísitölu frá Transparency International sem nær til 163 landa.

Löndin þrjú fá einkunnina 9,6 af 10 mögulegum. Næst koma Danmörk með 9,5; Singapore með 9,4; Svíþjóð með 9,2; Sviss með 9,1; og Noregur með 8,8. Haiti vermir botnsætið með 1,8 en næst koma Gínea, Írak og Myanmar með 1,9.

Athygli vekur að hér um bil þrjú af hverjum fjórum löndum fá lægri einkunn en 5. Og næstum helmingur þeirra, eða sjötíu og eitt land, fær lægri einkunn en 3.

Meðal þeirra landa sem fengu umtalsvert lakari einkunn nú en í fyrra voru Bandaríkin, Brasilía, Ísrael, Jórdanía, Kúba, Laos, Seychelles, Trínidad og Tóbagó og Túnis.

Meðal landa sem fengu umtalsvert betri einkunn en í fyrra voru Alsír, Indland, Japan, Lettland, Líbanon, Máritíus, Paragvæ, Slóvenía, Tékkland, Túrkmenistan, Tyrkland og Úrúgvæ.

Vísitalan er fengin með því að leggja saman niðurstöður tólf athugana á spillingu sem níu aðilar hafa gert, meðal annars tímaritið Economist, Freedom House, World Economic Forum og fleiri. Var þar ýmist um að ræða álitsgerðir sérfræðinga á vegum viðkomandi aðila eða skoðanakannanir sem gerðar voru meðal forystumanna í viðskiptalífi.

Stuðst er við þá skilgreiningu á spillingu að um sé að ræða misnotkun á opinberu embætti í eiginhagsmunaskyni (e. private gain).