Framleiðnivöxtur bandarísks vinnuafls mældist 1,9% á ársgrundvelli á þriðja ársfjórðungi. Launakostnaður hækkaði um 1,6%, en hann hefur ekki hækkað meira síðan á fjórða ársfjórðungi 2003. Minni framleiðnivöxtur gefur til kynna að fyrirtæki muni þurfa að auka ráðningar næstu mánuðina til þess að halda í við hagvöxt segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Nýskráningum atvinnuleysis fækkaði um 19.000 í seinustu viku, eða í 332.000 sem var umfram spár og í samræmi við áframhaldandi fjölgun starfa. Ef litið er til fjögurra vikna hlaupandi meðaltals nýskráninga atvinnuleysis, sem er mun stöðugri mælikvarði, fækkaði nýskráningum úr 343.500 í 342.000. Sem af er ári hafa nýskráningar verið að meðaltali 344.500 samanborið við 402.000 á árinu 2003 sem gefur til kynna að fyrirtæki séu ófús að segja upp starfsfólki.