Innflutningur á eldsneyti og smurolíu hefur dregist verulega saman frá metárinu 2007 og hefur ekki verið minni síðan 2003 skv. tölum Hagstofu Íslands. Ekki liggja þó fyrir endanlegar innflutningstölur olíuvara í desember síðastliðnum, en að þeim mánuði frátöldum hefur olíuinnflutningur frá 1999 einungis verið lægri árin 2001, 2002 og 2003.

Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að frá ársbyrjun 2009 til loka nóvembermánaðar voru flutt inn 690.068 tonn af olíuvörum. Inni í þeirri tölu er bensín, flugvélabensín, þotueldsneyti, gasolía, brennsluolía, smurolía og smurfeiti. Á sama tímabili 2008 voru flutt inn 731.037 tonn og 793.677 tonn metárið 2007. Á sama tímabili 2003 voru flutt inn 673.236 tonn. Olíuinnflutningurinn í desember síðastliðnum þarf að vera meiri en nokkru sinni í þeim mánuði síðasta áratug, eða 64.399 tonn, til að jafna innflutninginn 2008. CIF verðmæti olíuinnflutningsins fyrstu 11 mánuðina 2009 nam rétt tæpum 46 milljörðum króna.