Íslenskir bankamenn fullyrða að norski olíusjóðurinn sé í slagtogi með nokkrum vogunarsjóðum í að taka stöðu gegn íslensku viðskiptabönkunum á markaðnum með skuldatryggingarálög.

Þetta kemur fram í grein á heimasíðu ráðgjafafyrirtækisins Institutional Risk Analytics (IRA), en sérfræðingar komu hingað til lands á dögunum til fyrirlestrahalds um skuldatryggingar.

Sérfræðingar IRA fluttu meðal annars fyrirlesturinn „Fjármálaafleiður og önnur verk Satans” en í honum er fjallað um takmarkanir markaðarins með skuldatryggingar og hversu hættulegur hann kann að vera þar sem engin tengsl eru á milli álagsins og þeirrar skuldar sem það á að endurspegla.

Fram kemur í greininni að þeir telja skuldatryggingaálag íslensku bankanna vera úr takti við raunveruleikann og telja mikil tækifæri felast í fjárfestingum á þeim og að þeir sem eiga skuldabréf íslensku bankanna eigi að nýta sér tækifærin áður en að álagið hríðlækki.

Þeir segja nánast engar líkur á því að einn af stóru íslensku bönkunum verði gjaldþrota – hvorki seðlabankinn né lífeyrissjóðirnir myndu leyfa slíkt - og að allir þeir sem hafa tök á að gefa út skuldatryggingar í þeim ættu því að notfæra sér þau tækifæri sem hið háa álag á mörkuðum nú veita.

Í greininni taka þeir sem dæmi að stæði valið á milli skortstöðu í skuldatryggingum Kaupþings eða þá bandaríska fjárfestingabankanum JP Morgan, þá myndu þeir taka fyrrnefnda kostinn í núverandi árferði.

Sem kunnugt er endurspeglar skortstaða að eitthvað muni lækka þannig að þeir sem telja álagið á íslensku bankanna vera of hátt taka skortstöðu á móti því, og þar leiðandi taka þeir fjárfestar sem telja bankanna illa stadda langa stöðu á markaðnum með skuldatryggingaálög.

Þessi skoðun ráðgjafafyrirtækisins er meðal annars rökstudd með því að eignasafn íslensku bankanna er ekki eitrað af mjög gírugum fjármálagjörningum á borð við fasteignatryggða skuldabréfavafninga.

Skuldatryggingaálag í „fáranlegum" hæðum

Sérfræðingar IRA segja að heimsókn þeirra til Íslands hafi styrkt þá í þeirri skoðun að víða sé pottur brotinn í umfjöllun fjölmiðla um fjármálamarkaði.

Þeir hafa það fyrir satt frá íslensku bankamönnum  að norski olíusjóðurinn sé í slagtogi við nokkra vogunarsjóði um að þrýsta upp skuldatryggingaálagi íslensku bankanna í „fáránlegar” hæðir í þeirri von að hagnast á því að lausafjárkrísa skelli á  íslenska hagkerfið – eða jafnvel hrun á íslenska fjármálamarkaðnum.

Sjóðirnir beiti ýmsum bellibrögðum til þess að hrinda þessari atburðarrás í gang og ítreka þeir þær ásakanir sem hafa verið settar fram af íslenskum banka- og stjórnmálamönnum undanfarið. Þeir segja að íslensku bankamennirnir hafi tjáð þeim í heimsókninni að sjóðirnir hafi gengið svo langt að þeir hafi ráðið til sín almannatengslafyrirtæki til þess að dreifa áróðrinum gegn íslenska hagkerfinu.

Í greininni kemur fram að svipað hafi verið reynt gegn fjárfestingabankann Bear Stearns í marsmánuði. En árásin mistókst að hluta þar sem  bandaríski seðlabankinn og JP Morgan björguðu Bear Stearns frá gjaldþroti og þar með sátu þeir sem voru í langri stöðu í skuldatryggingaálaginu á bankanum í súpunni.

Ljóst er að sérfræðingar IRA telja þróunina á afleiðumörkuðum á borð við þá með skuldatryggingarálög vera varhugaverða. Nafnið á fyrirlestrinum hér fyrir ofan er til marks um það. Þeir benda á að fjárfestar geti tekið stöðu gegn fjármálastofnunum og heilu löndunum með slíkum fjármálagjörningum sökum þess hversu grunnur og ógagnsær markaðurinn er.