Allar líkur eru á því að Donald Trump ráði Steven Mnuchin, sem er meðal annars fyrrum yfirmaður Goldman Sachs viðskiptabankans, sem næsta fjármálaráðherra Bandaríkjanna í ríkisstjórn sinni. CNN Money greinir frá.

Upp á síðkastið hefur Mnuchin starfað sem kvikmyndaframleiðandi og hefur verið viðskiptafélagi Trumps í háa herrans tíð. Hann starfaði einnig sem fjármálastjóri kosningabaráttu Trumps.

Helstu verkefni Mnuchin verða að ná stjórn á háum skuldum bandarísks ríkissjóðs, setja strangari reglugerðir á Wall Street og lægja öldur sem gætu skapast við viðskiptaþjóðir sem stunda milliríkjaviðskipti við Bandaríkin.

Talið er líklegt að milljarðamæringurinn Wilbur Ross, sem er einnig þekktur sem „konungur gjaldþrotanna,“ verði ráðinn sem viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Trump.

Það vekur athygli erlendra fréttamiðla að fyrrum bankamaður sé líklega að fara að taka við stöðu þar sem að eitt af helstu hlutverkunum verður að „ræsa fram mýrina,“ eins og Trump orðar það sjálfur - eða berjast gegn spillingu á Wall Street.