Bandaríska álfyrirtækið Century Aluminum tapaði 9,5 milljónum dala, jafnvirði tæpra 1,2 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi. Til samanburðar nam tap fyrirtækisins 12 milljónum dala á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Century Aluminum er móðurfélag álversins á Grundartanga.

Tekjur námu 400 milljónum dala á fjórðungnum sem er tæpum 100 milljónum dölum meira en á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri Century Aluminum að óvissa um efnahagsþróun hafi sett mark sitt á afkomu fyrirtækisins. Michael Bless, forstjóri Century Aluminum, segir jafnframt óvissu í efnahagsmálum Kínverja, Bandaríkjunum og vandræðagang á evrusvæðinu spila inn í.