Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody’s mun að líkindum lækka lánshæfismat stóru íslensku viðskiptabankanna þriggja í þessari viku eða næstu.

Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, telur líklegt að lækkunin verði um eitt hak eða tvö, þótt enn sé veik von um að einkunnir haldist óbreyttar.

„Það er afskaplega mikilvægt að hafa í huga, þótt það verði tvö hök, að íslensku bankarnir verði þá á sama stað og þeir voru í janúar 2007,“ segir Edda Rós.

Moody’s tilkynnti í lok janúar að það hefði tekið lánshæfismat Glitnis og Landsbankans til endurskoðunar. Jafnframt var endurmati á lánshæfi Kaupþings haldið áfram. Bankarnir þrír eru með einkunnina Aa3.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .