Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody´s Investors Service birti í dag árlega skýrslu í tengslum við lánshæfi ríkissjóðs. Álitið felur ekki í sér endurskoðun á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs, sem er áfram A3 með jákvæðum horfum.

Segir matsfyrirtækið styrk efnahagslífsins á Íslandi felast í sveigjanleika, auði, samkeppnishæfni og góðum lýðfræðilegri þróun, sem allt ýti undir langtímahagvöxt. Jafnframt geti þessir eiginleikar hjálpað hagkerfinu að jafna sig á áföllum sem séu óhjákvæmileg vegna smæðar og hve háð hagkerfið er fáum sterkum atvinnugreinum.

Þannig hrósar fyrirtækið endurreisn hagkerfisins frá hruni, sem sýni styrk stofnana landsins, og varkáru og velheppnuðu afnámi gjaldeyrishafta án mikills uppnáms.

Jafnframt hafi styrkur hagstjórnarinnar verið aukinn með niðugreiðslu skulda, sem dragi aftur úr áhættu. Þannig eigi skuldirnar hins opinbera að dragast saman í um 34% af vergri þjóðarframleiðslu á næsta ári.

Veikleikarnir eru eins og þekkt er vegna smæðar hagkerfisins og lítillar fjölbreytni samhliða opins markaðs og lítils gjaldmiðils, sem geti gert hagkerfið viðkvæmara fyrir upp- og niðursveiflum.

Vegna falls Wow air sé búist við tímabundnum samdrætti í hagkerfinu í ár, en sterk staða heimilanna í landinu dragi úr niðursveiflunni, svo búast megi við 2,5% hagvexti á næsta ári.

Aðrir áhættuþættir eru nefndir stór eignarhlutur ríkisins í fjármálastofnunum og útganga Bretlands úr Evrópusambandinu. Jákvæð hrein erlend eignastaða landsins dragi þó úr áhættu.

Til greina komi að hækka lánshæfismatið ef skuldastaðan batni enn frekar, og vel takist til að ná góðri lendingu í efnahagsniðursveiflunni nú. Hins vegar ef það takist ekki og enn haldi áfram að draga úr tekjum af ferðamennskunni kæmi til greina að lækka lánshæfiseinkunnina.